Lögreglan á Selfossi rannsakar nú fimm innbrot sem framin voru í síðustu viku í Þorlákshöfn, Reykjaskógi og Grímsnesi.
Brotist var inn í verslunina ÓS í Þorlákshöfn aðfaranótt síðastliðins laugardags. Þjófurinn hafði á brott um það bil 40 lengjur af tóbaki af ýmsum tegundum.
Rétt fyrir klukkan sjö síðastliðinn fimmtudagsmorgun var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í sumarbústað í Reykjaskógi í Bláskógabyggð. Vitni sá lítilli grárri fólksbifreið ekið af svæðinu um líkt leyti, ekki sá hann skráninganúmer né hver tegund bifreiðarinnar var. Þrátt fyrir leit fannst bifreiðin ekki. Tilkynnt hefur verið um innbrot í tvo aðra bústaði á svæðinu. Úr bústöðunum var stolið flatskjáum og hljómflutningstækjum.
Aðfaranótt síðastliðins miðvikudags var brotist inn í hjólbarðaverkstæði við Minni Borg í Grímsnesi og þaðan stolið loftlykli, topplyklasettum, tveimur hjólatjökkum og fleiri minni verkfærum. Verðmæti þýfisins er talið vera hátt í 3 milljónir króna. Þjófarnir höfðu bundið spotta í hurð og í bíl og ætlað að kippa henni út. Það gekk ekki eftir en þeim tókst með einhverjum hætti að lyfta hurðinni og komast inn.
Engar vísbendingar eru um hverjir hafi staðið að þessum innbrotum. Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar að hafa samband í síma 480 1010.
Þá voru tveir 16 ára gamlir piltar staðnir að hnupli í verslun N1 við Austurveg á Selfossi í síðustu viku. Báðir eru þeir sakhæfir en viðkomandi barnaverndarnefndum verður tilkynnt um atvikið.