Byggðastofnun hefur veitt tíu styrki, samtals fimm milljónum króna, til samfélagsverkefna í Skaftárhreppi á vegum verkefnisins Brothættra byggða.
Stærsti styrkurinn, ein milljón króna, fer til Fótspors, félags um sögu og minjar í Skaftárhreppi, til varðveislu ljósmynda sem til eru úr hreppnum frá því fyrir aldamótin 1900 og fram á miðja 20. öldina.
Áhugahópur um handverkssmiðju fær 700 þúsund krónur og fimm verkefni fá 500 þúsund króna styrk. Bændur græða landið til rannsóknar á gæsabeit í túnum, Feldfjárræktarfélagið til að styrkja undirstöður í feldfjárrækt, Kirkjubæjarstofa vegna útgáfu á upplýsingum um þjóðleiðir og fornar ferðaleiðir, Friður og frumkraftar vegna verkefnisins Hvað er í matinn? og Maríubakki ehf. til að hanna uppskriftir úr gulrófum.
Þá fékk Skaftárhreppur 300 þúsund króna styrk vegna heilsudaga og þær Sunneva Kristjánsdóttir og Auðbjörg Bjarnadóttir fengu sömu upphæð vegna tilraunaverkefnisins Plastpokalaus Skaftárhreppur.
Lægsti styrkurinn, 200 þúsund krónur, fór til Kirkjubæjarstofu vegna 20 ára afmælishátíðar Kirkjubæjarstofu í september næstkomandi.