Fimm útköll á einni viku

Félagar í Björgunarfélagi Árborgar höfðu í nógu að snúast í liðinni viku en samtals var sveitin kölluð í fimm útköll auk þess sem hún sinnt ýmsum fjáröflunarverkefnum.

Árborgarar voru tvívegis kallaðir út föstudaginn 24. maí. Fyrst til leitar í nágrenni Þórsmerkur þar sem erlendur ferðamaður hafði villst. Hann kom fljótlega í leitirnar heill á húfi. Seinna sama dag var bátaflokkur kallaður í viðbragðsstöðu vegna manns sem hótaði að stökkva í Ölfusá, en útkallið var afturkallað stuttu síðar.

Síðastliðinn laugardag var sveitin aftur kölluð út tvisvar, fyrsta vegna leitar innanbæjar á Selfossi. Leitin var nokkuð viðamikil og naut björgunarfélagið liðsinnis annara björgunarsveita í Árnessýslu, leitarhunda og flugvélar. Stórnun og skipulag leitarinnar fór fram í stjórnstöð Björgunarfélagsins og svæðisstjórnar í Tryggvabúð. Maðurinn fannst eftir um þriggja tíma leit.

Tveimur klukkutímum síðar var sveitin kölluð út aftur til aðstoðar við stóra leit að franskri ferðakonu á Vestfjörðum. Hún fannst heil á húfi síðar um kvöldið.

Fimmta útkallið bættist svo við í gærmorgun þegar sveitin var fengin til að leiðbeina jeppamönnum niður af Grafningshálsi milli Grafningsvegar og Ingólfsfjalls, en þeir höfðu samband við lögreglu og vissu ekki hvaða leið þeir ættu að fara til baka.

Samhliða þessum útköllum var þónokkuð um fjáraflanir hjá sveitinni t.d. tjöldun á risatjaldi í bæjargarðinum á Selfossi, gæsla á Sjóaranum síkáta í Grindavík og umsjón með hátíðarhöldum vegna sjómannadagsinns á Stokkseyri.

Fyrri greinFannar fór holu í höggi og setti vallarmet á Hellu
Næsta greinKamar féll á bifreið