Blómstrandi dagar fara fram í Hveragerði um helgina og af því tilefni var afhjúpað söguskilti við hverasvæðið í dag, hið fimmta í bænum.
Áður hafa verið sett upp skilti við við Skáldagötuna, Mjólkurbúið, Laugaskarð og Varmahlíðarhúsið og á morgun verður afhjúpað enn eitt skiltið við rústir ullarverksmiðjunnar við Reykjafoss.
„Með söguskiltunum viljum við gera sögu bæjarins hátt undir höfði og kynna þá staði sem merkastir eru í þróun byggðar í Hveragerði. Enn er af nógu að taka og mun verkefnið halda áfram á næstu árum enda hefur tilkoma söguskiltanna auðgað mjög menningu Hvergerðinga,” sagði Unnur Þormóðsdóttir, forseti bæjarstjórnar, í ávarpi við afhjúpun skiltisins.
Það var Aðalsteinn Steindórsson sem afhjúpaði skiltið en hann er elsti núlifandi Hvergerðingurinn. Aðalsteinn flutti til Hveragerðis árið 1930 þá 9 ára gamall og bjó að Ásum sem er norðan við hverasvæðið, í einu af fyrstu íbúðarhúsunum í Hveragerði.
Aðalsteinn var ungur í framvarðasveit þeirra manna sem unnu að borun eftir heitu vatni og jarðgufu á fimmta áratug 20. aldar og einn af þeim sem hefur fengist við virkjanir á flestum gosholunum í Hveragerði.