Liðsmenn Brunavarna Árnessýslu hafa verið kallaðir út fimmtíu sinnum vegna gróðurelda frá því klukkan sex á gamlárskvöld.
„Ég man ekki eftir svona svakalega mörgum útköllum um áramótin. Við erum búnir að boða út allar okkar stöðvar á einhverjum tímapunkti, nema Laugarvatn, og slökkviliðsmenn hafa verið að fara út um alla sýslu, til dæmis fóru liðsmenn okkar í Þorlákshöfn bæði í útköll á Selfossi og í Hveragerði,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, settur varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is nú á öðrum tímanum.
Nokkur hús í mikilli hættu í Tjarnabyggð
Langstærsta útkallið var í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi og Lárus segir að þar hefði auðveldlega getað farið mjög illa.
„Það voru þarna hús í hættu og nokkur hús í mikilli hættu. Það mátti mjög litlu muna. Það er mjög hvasst og það hjálpar ekki til því þá er eldurinn fljótur að hlaupa. En við fengum jarðýtu í lið með okkur og björgunarsveitarfólk á fjórhjólum og sexhjólum og þá fór þetta að ganga hraðar. Þetta er að klárast hjá okkur núna,“ sagði Lárus ennfremur.
Útköll vegna óleyfisbrenna
Slökkviliðsmenn eru einnig í stóru útkalli nálægt Árnesi og þar eru liðsmenn BÁ í Gnúpverjahreppi og á Flúðum að störfum.
Lárus segir nánast öruggt að í öllum tilvikum séu upptök eldanna út frá flugeldum og brennum. „Það eru meðal annars nokkrar óleyfisbrennur sem hafa valdið sinueldum í kvöld. Það þarf ekki mikið til og lítið bál getur orðið að stórbruna í svona hvassviðri eins og í kvöld. Ef það næst ekki utan um þetta strax þá er hætta á að missa eldinn úr böndunum,“ sagði Lárus að lokum, um leið og hann fékk enn eitt útkallið í talstöðina, nú við Velli í Ölfusi.