Leiðindaveður er nú við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi og eru mun færri á ferðinni þar nú en í gær. Nokkuð hefur borið á illa klæddum ferðalöngum og hafa björgunarsveitarmenn þurft að aðstoða nokkra vegna kulda og vosbúðar.
Þar af var einn kominn upp á Fimmvörðuháls klæddur í gallabuxur og leðurjakka. Sá var kominn með einkenni ofkælingar en björgunarsveitarmenn aðstoðuðu hann við að komast niður til byggða. Því hefur verið brugðið á það ráð að manna bíl við gönguleiðina upp Fimmvörðuháls þar sem illa búnum ferðalöngum er snúið frá.
Vísindamenn fóru í dag í flug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir eldstöðina þar sem staðan var tekin á virkni og hraunflæði frá henni. Strókar hafa minnkað en hraunrennslið er nokkuð stöðugt og rennur bæði niður í Hvannárgil og Hrunagil. Nýtt hraun rennur nú yfir eldra hraun og rennur því hraðar. Mat vísindamanna er að hraunrennslið nái niður á Krossáraura innan fárra daga.
Mikil hætta er á að eiturgufur setjist í lægðir og dældir nálægt eldstöðinni og ber sérstaklega að varast að vera á ferð í Hrunagili og Hvannárgili. Ennfremur er rétt að minna á þá hættu sem geti stafað af gufusprengingum við hraunrennslið þar sem glóandi hraun mætir vatni eða ís.