Systurnar Emelía Sól og Andrea Ýr Gústavsdætur stofnuðu nýlega lífstílsfyrirtækið Kurashi. Fyrsta vara fyrirtækisins – jógadýna – kom á markaðinn skömmu fyrir jól og fékk mjög góðar viðtökur.
„Mig hefur lengi dreymt um að hanna eigið vörumerki. Við höfum mjög mikinn áhuga á tísku þó svo að við séum engar tískudrottningar en vandaðar og fallegar vörur kunnum við vel að meta. Við erum einnig alveg dolfallnar yfir jóga, andlegri heilsu og yfir höfuð heilbrigðum lífsstíl og þannig púslaðist saman hugmyndin af Kurashi,“ segir Emelía í samtali við sunnlenska.is.
Andrea segir að þær hafi byrjað í jóga og spáð mikið í andlegri heilsu fyrir 11 árum. „Við elskum lífstílinn sem jóga hefur gefið okkur, þannig okkur langar að reyna deila honum áfram og vonum innilega að Kurashi muni gera það. Við höfum átt ótal mörg göngutúra spjöll um framtíðardrauma eins og að vera vinna saman og í þannig vinnu sem gæfi okkur frelsið að vera hvar sem er í heiminum. Það má segja að það sé meðal annars okkar aðal markmið.“
Festist í hamstrahjólinu
Andrea segir að barneignir hafi breytt forgangsröðinni sinni og hafði hún ekki eins mikinn tíma fyrir jóga og áður. „Ég eignaðist syni mína, Tómas Franklín í september árið 2020 og Atlas Emil í janúar 2022 og síðan þá festist ég í hamstrahjólinu.“
„Emelía hélt áfram að stunda jóga og var mikið með fókusinn á drauminn að stofna eigið fyrirtæki. Þegar hún var búin að safna fyrir startkostnaði, finna nafnið Kurashi og panta prufu af dýnu, þá talaði hún og Ísak við mig og buðu mér að vera með sér í þessu verkefni,“ segir Andrea og á þar við Ísak Eldjárn, kærasta Emelíu.
„Ég var þá nýbúin að missa tökin og var að byrja aftur að hugsa um heilsuna svo þetta verkefni hljómaði mjög vel. Við fórum þá á fullt að prufa dýnur og reyna fullkomna hugmyndina með Kurashi.“
Átta ára gamall draumur
Emelía tekur undir orð systur sinnar og segir að hugmyndin að hanna vörumerki hafi blundað lengi í henni ekki síst eftir að hún dvaldi á Balí árið 2017. „Þá fyrst kom lítil von og trú á að ég gæti mögulega einn daginn stofnað eigið vörumerki, þar sem áður hafði ég frekar litla trú á mér. En hugmyndin af Kurashi kom til okkar í desember 2023, þannig allt síðasta ár fór hugmyndin að þróast og við tókum hana loks á næsta stig og létum drauminn verða að veruleika, það var samt eiginlega ekki fyrr en í lok sumars þar sem við sáum að þetta væri raunverulega að fara gerast.“
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og við finnum fyrir svo miklum stuðningi og peppi úr öllum áttum sem er alveg ómetanlegt og langt fram yfir okkar væntingar,“ segir Emelía og Andrea er sama sinnis. „Fólk er mjög jákvætt og spennt að prufa dýnurnar og að hafa heyrt af nokkrum dýnum frá okkur í jólapökkunum finnst okkur vera mjög mikið hrós.“
Japanski stíllinn heillandi
Kurashi er japanskt orð og þýðir lífsstíll. „Meiningin er einnig að sjá það sem skiptir mestu máli í lífinu og þá byrjum við að lifa lífinu til fulls. Við heillumst mikið af japönskum stíl og vorum að skoða allskyns orð á framandi tungumálum en Ísak á allan heiðurinn á nafninu Kurashi, þar sem hann var að brainstorma á netinu og fann þetta fallega japanska orð,“ segir Emelía.
Emelía segir að það sé ótímabært ennþá að greina frá næstu vörum Kurashi þar sem þær eru enn í vinnslu. „Þær eru tengdar jóga en alls ekki einungis fyrir fólk sem stundar jóga. Meira svona aukahlutir sem höfða til sem flestra.“
Pláss fyrir alla
„Draumurinn er að þetta verkefni gangi vel hjá okkur og að við fáum tækifæri til að hreyfa við fólki, halda áfram að hanna fallegar og vandaðar vörur til að styðja við heilbrigðan lífsstíl. Og mögulega vera með jóga retreat einn daginn á uppáhalds staðnum okkar, Balí,“ segir Emelía.
„Hægt er að nálgast vörurnar á kurashi.is og endilega fylgist með okkur á Instagram @kurashi.is þar sem við vonum að við getum gefið fólki smá innblástur,“ segir Emelía og Andrea bætir við. „Eltu draumana þína og hafðu trú á þér því það er pláss fyrir okkur öll. Enginn veit hvort það virki nema að prufa.“