Ökumaður flutningabíls slapp án teljandi meiðsla þegar bíll hans valt í Gatnabrún í Mýrdal um miðnætti.
Bíllinn var fulllestaður af fiski og hafa björgunarsveitarmenn úr Víkverja í Vík og Kyndli á Klaustri verið við hreinsunarstarf á vettvangi í hálfan sólarhring.
Orri Örvarsson, formaður Víkverja, sagði í samtali við RÚV að fiskur og kjöt hafi verið út um allt eftir veltuna.
„Bílstjórinn slapp nú alveg ótrúlega vel en bíllinn gjörónýtur og vagninn líka. Við byrjuðum á vegalokunum og svoleiðis og svo erum við búnir að vera í alla nótt að týna saman fisk í kör. Það er mikill sóðaskapur sem fylgir þessu,“ segir Orri.