Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur friðlýst Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi.
Mörk hins friðlýsta svæðis ná yfir austurhluta gljúfursins og afmarkað svæði ofan gljúfranna austan megin. Það svæði er í eigu Hverabergs ehf. og er friðlýsingin unnin í góðu samstarfi við Hveraberg og sveitarfélagið Skaftárhrepp.
Vinna við friðlýsinguna hófst í framhaldi af tímamótasamningi sem umhverfis-, orku og loftslagsráðherra og Hveraberg skrifuðu undir í janúar síðastliðnum og kveður á um samstarf um verndun Fjarðárgljúfurs og uppbyggingu innviða á svæðinu.
„Fjaðrárgljúfur er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður og allt sem bendir til þess að ásókn ferðamanna á svæðið muni aukast á komandi misserum. Það er því mjög ánægjulegt að geta í samstarfi við landeigendur og Skaftárhrepp friðlýst svæðið og skapað því þá umgjörð sem nauðsynleg er til verndar náttúrunni á svæðinu og til móttöku ferðamanna,“ segir Guðlaugur Þór.
Vinsældir Fjaðrárgljúfurs eru miklar og hafa aukist mjög á síðari árum. Fjöldi þeirra sem sækja staðinn heim hefur jafnvel leitt til þess að loka hefur þurft svæðinu tímabundið vegna ágangs. Mikil þörf hefur því verið á uppbyggingu innviða til verndar náttúru og til að bæta öryggi þeirra sem fara um svæðið ásamt landvörslu til að fræða og upplýsa um náttúruvættið.