Fjallaferð „í heimabyggð“

Jeppamennirnir skrifa í gestabókina sem er á fjallsbrúninni vestan við Þórustaðanámu. sunnlenska.is/Ívar Örn Sigurðsson

Nokkrir félagar úr Suðurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4×4 fóru á Ingólfsfjall í blíðviðrinu í dag og skrifuðu í gestabókina þar eins og venja er hjá þeim fjölmörgu sem leggja daglega á fjallið.

Það þarf ekki að taka það fram að félagarnir fóru ekki hina hefðbundnu gönguleið heldur óku þeir fáfarinn slóða úr Ölfusi upp á Grafningsháls og þaðan upp á fjallið. 

Að sögn Ívars Arnar Sigurðssonar, eins leiðangursmanna, gekk ferðin vel en leiðin var nokkuð snúin á köflum og ekki á færi lítið breyttra bíla.

„Það eru þarna brattar brekkur sem eru nokkuð erfiðar, en annars var þetta fín ferð og gaman að koma upp á fjall,“ sagði Ívar og bætti við að það sé ekki algengt að menn fari í fjallaferðir, svona í heimabyggð.

„Nei, það er ekki algengt að menn fari þarna upp að vetri til á jeppum en aðstæður á fjallinu voru ágætar og við gættum auðvitað vel að öllum gróðri á leið okkar. Og útsýnið yfir Selfossbæ og Flóann var auðvitað frábært þarna uppi,“ sagði Ívar að lokum.

Fyrri greinEmblur gáfu spjaldtölvur á Ljósheima og Fossheima
Næsta greinHSU mun létta undir með Landspítalanum