Fjárfesta í olíukatli á tímum orkuskipta

Höfnin í Hornafirði. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

Bæjarráð Hornafjarðar skorar á stjórnvöld að fara nú þegar í aðgerðir til þess að tryggja næga raforku til notenda og koma í veg fyrir að keyra þurfi á innfluttri og mengandi orku.

Nú er staðan sú að úrgerðarfélagið Skinney-Þinganes er knúið til þess að fjárfesta í olíukatli til þess að hafa varaafl þegar ekki er til næg raforka í landinu.

„Skinney-Þinganes hafa síðastliðin níu ár keyrt sína framleiðslu á uppsjávarfiski á raforku. Fyrirtækið hefur fjárfest gríðarlega í sínum metnaðarfullu sjálfbærnimarkmiðum, en nú er svo komið að enga orku er að fá. Þá er ekki annað í boði en að stíga til baka og keyra verksmiðjuna á olíu í vetur. Þetta er grafalvarleg staða og hér á landi verðum einfaldlega að stórauka okkar raforkuframleiðslu og koma í veg fyrir að vera knúinn í svona stöðu,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Og til að halda því til haga má nefna að ef við fáum miðlungsgóða loðnuvertíð gæti þurft að nota í vinnsluna allt að hálfri milljón lítra af díselolíu og allt að einni milljón lítra ef vertíðin verður stór,“ bætti Sigurjón við.

Málið var rætt á síðasta fundi bæjarráðs sem lýsir furðu sinni og vonbrigðum með að hér á landi sé komin upp sú grafalvarlega staða að fyrirtæki séu nú sett í þá stöðu að þurfa að fjárfesta í tækjum sem framleiða orku og keyra á díselolíu.

Fyrri greinGul viðvörun: Hvassviðri og snjókoma
Næsta greinGeoSalmo lýkur tveggja milljarða króna fjármögnun