Fjárframlög til stofnunarinnar fylgja ekki vaxandi þörf

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Bæjarráð Árborgar lýsir yfir áhyggjum af stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Fjárframlög til stofnunarinnar fylgi ekki vaxandi þörf vegna fjölgunar íbúa og ferðamanna á svæðinu.

Í bókun bæjarráðs frá síðasta fundi segir að fjárframlög til stofnunarinnar fylgi ekki þörfinni, en auk íbúa á svæðinu sem hefur fjölgað umtalsvert á skömmum tíma, þjónar stofnunin þúsundum gesta í sumarhúsum á Suðurlandi og þeim stóraukna fjölda ferðamanna sem sækir Suðurland heim. Um 90% þeirra ferðamanna sem koma til Íslands sækja Suðurland heim.

„Horfa verður til þess að þjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurlands tekur yfir mjög stórt landsvæði og er veitt t.d. með rekstri heilsugæslustöðva mjög víða á svæðinu og sjúkraflutningum um allt svæðið, bæði í byggð og á hálendinu,“ segir ennfremur í bókun bæjarráðs.

Fyrri greinFlestir Hvergerðingar fæddir árið 1950
Næsta greinÍsabella Sara semur við Selfoss