Réttað var í fyrra sinn í Fljótshlíðarrétt í morgun í sól og blíðu. Smölun lýkur þar um helgina og verður réttað aftur á sunnudag.
Kristinn Jónsson, fjallkóngur á Staðarbakka, segir að smölun hafi gengið vel og fé komi mjög vænt af fjalli. Afréttur Fljótshlíðinga var smalaður um síðustu helgi og segir Kristinn að það hafi gengið ljómandi vel en tuttugu manns fóru inn á afréttinn til smöluna.
Um næstu helgi verður svokallað byggðasmal þar sem smalað er á heimalöndum og heiðum.
„Það voru ekki nema þúsund fjár í réttinni í dag. Það eru alltaf færri og færri sem fara með fé inn á afrétt. Í fyrra var það ekki gert vegna ösku en afrétturinn lítur mjög vel út núna, nema helst beitilyngið,“ sagði Kristinn í samtali við sunnlenska.is.
„Við lentum reyndar í öskufoki innfrá en kenndum frekar Grímsvatnagosinu um það. Askan er komin í skafla og gil og lautir og hreyfist minna en fokið er samt talsvert. Reyndar var öskufokið svo mikið innst í Hlíðinni að við sáum ekki í Eyjafjallajökul frá Fljótsdal en þar eru rétt um fimm kílómetrar á milli.“
Kristinn segir að safnið sem rekið verði á laugardaginn sé talsvert stærra, 2-3000 fjár, en það endar ekki allt í réttinni því stór hluti af því er rekinn heim á bæi inn alla Hlíðina.
Meðal þeirra sem mættu í Fljótshlíðarrétt í dag voru nemendur á miðstigi í Hvolsskóla. Mikill spenningur var í hópnum fyrir ferðina sem varð hin ánægjulegasta.
Sigurður Jónsson tók myndirnar hér að neðan.