Unnið er að endurskoðun fjárhagsáætlunar vegna Landsmóts hestamanna sem fer fram á Hellu í byrjun júlí á næsta ári.
Að sögn Haraldar Þórarinssonar, formanns Landsambands hestamanna, er gert ráð fyrir miklum fjölda á mótið en mikilvægt er að vel takist til svo að fjárhagur rekstrarfélags Landsmótsins lagist. Síðasta Landsmót velti um 140 milljónum króna og taldi Haraldur að það yrði tæplega minna núna.
Haraldur sagði að Rangárþing ytra íhugi að leggja sérstakan veg að landsmótssvæðinu sem myndi auðvelda aðgengi keppenda og annara að mótssvæðinu. Einnig eru menn spenntir að sjá hvernig ný reiðhöll kemur til með að nýtast við sýningarhaldið.
„Það sem skiptir mestu fyrir svona mót eru veður og sjúkdómar. Ef við sleppum vel þar erum við bjartsýn á að vel takist til,” sagði Haraldur í samtali við Sunnlenska.