Bæjarráð Árborgar samþykkti í morgun tillögu félagsmálanefndar Árborgar um að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir árið 2012 verði óbreytt og fylgi ekki vísitölu neysluverðs.
Sandra Gunnarsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd, greiddi atkvæði gegn tillögunni í nefndinni og Eggert Valur Guðmundsson tók undir þá afstöðu í bæjarráði í morgun.
Eggert segir óeðlilegt að grunnupphæð fjárhagsaðstoðar fylgi ekki vísitölu neysluverðs eða almennri launaþróun.
„Ákvörðun meirihlutans […] er athyglisverð með tilliti til þess að fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar samþykktu nú á dögunum án athugasemda bæði á ársþingi Sambands sunnlenskra Sveitarfélaga og haustfundi Héraðsnefndar Árnesinga almennar verðlagshækkanir til undirstofnana sinna,“ segir í bókun sem Eggert lagði fram og bætir hann því við að það sé hans mat að það sé umhugsunarefni fyrir meirihlutann hvort unnið sé eftir réttlátri og eðlilegri forgangsröðun.
Fulltrúar D-listans í bæjarráði lögðu í kjölfarið fram bókun þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum af aukningu útgjalda vegna fjárhagsaðstoða. „Gripið var til aðgerða sl. vor til að aðstoða fólk við að komast aftur út í atvinnulífið, þessar aðgerðir hafa sannarlega skilað árangri og þeim fjármunum vel varið,“ segir í bókun D-listans.