Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að veita Heilbrigðisstofnun Suðurlands 9 milljóna króna framlag til búnaðarkaupa í því skyni að efla fjarheilbrigðisþjónustu í umdæminu.
Stærstur hluti fjárins kemur af byggðaáætlun til ársins 2024. Annars vegar er um að ræða 3,7 milljónir króna til kaupa á íhlutum fyrir fjarheilbrigðisbúnaðinn Agnesi. Búnaðurinn er þegar notaður á fimm starfsstöðvum HSU og nýtist til ýmissa heilsufarsmælinga og skoðana á sjúklingum í gegnum fjarbúnað sem ella myndu kalla á ferðalög sjúklings til læknis, oft um lengri veg. Íhlutirnir sem keyptir verða eru m.a. tengi fyrir hjartalínurit, súrefnismettunarmælar fyrir ungabörn, öndunarpróf, auk heyrnartóla og vefmyndavéla.
Hins vegar fær stofnunin 5,3 milljóna króna styrk til kaupa á lófatölvum, búnaði og leyfum til að hefja notkun snjallforritsins Smásögu fyrir starfsfólk sem sinnir heimahjúkrun. Með snjallforritinu getur starfsfólkið skráð upplýsingar um þjónustunotendur í rauntíma í gegnum lófatölvu sem flytjast beint inn í sjúkraskrárkerfið Sögu. Rauntímaskráning dregur úr líkum á rangri skráningu upplýsinga, eykur öryggi sjúklinga og sparar tíma starfsfólks.