Nýverið komin út bókin Viltu finna milljón? eftir Grétar Halldórsson frá Selfossi og Hrefnu Björk Sverrisdóttur.
Í bókinni er að finna ráð til að auka tekjur auk, upplýsinga um allt það helsta sem viðkemur fjármálum eins og til dæmis fjármálauppeldi, lánum, peningahegðun og fjárfestingum. Að auki inniheldur bókin fjölda viðtala við einstaklinga sem gefa góð ráð á sínum sviðum.
„Í raun ætti hver sem er að geta nýtt sér bókina. Viltu finna milljón? snýst ekki um að hætta að lifa, heldur að nýta peningana á þann hátt að við hámörkum ánægjuna af þeim. Í þessu felst ígrundun á venjum okkar og viðhorfum til peninga. Áhyggjur af fjármálum geta verið mjög íþyngjandi og ég vona að fólk sem les bókina geti tileinkað sér nokkur gullkorn sem gera lífið léttara og skemmtilegra. Til dæmis er fjallað um peningastefnumót para og ráð fyrir foreldra um fjármálauppeldi barna,“ segir Grétar í samtali við sunnlenska.is.
Mikið af fjárhagslegum gildrum fyrir ungt fólk
Grétar segir að þó að bókin sé ætluð öllum aldri þá eigi hún kannski helst erindi við ungt fólk. „Ég myndi segja að bókin henti kannski best fyrir ungt fólk sem er ekki á kafi í fjármálum og langar að bæta þekkinguna sína á léttan og skemmtilegan hátt.“
„Fyrirtæki leggja mörg fjárhagslegar gildrur fyrir ungt fólk og þá er gott að hafa í huga að hver króna sem er spöruð og sett í fjárfestingar getur opnað dyrnar fyrir fjölbreyttum tækifærum í framtíðinni, svo sem að kaupa sér fyrstu íbúðina, stofna fyrirtæki, fara í draumanámið eða draumafríið. Bókin getur því verið ágæt jólagjöf, fermingar- eða útskriftargjöf fyrir ungt fólk.“
Internetið gleymir engu
Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Sagan af því hvernig það atvikaðist að náttúrufræðikennarinn Grétar og athafnakonan Hrefna Björk er heldur skondin. „Ég þekkti Hrefnu ekki fyrr en hún rataði á gamalt blogg sem ég hafði skrifað um ýmislegt tengt fjárhagslegri markmiðasetningu og fjárhagslegu sjálfstæði. Henni fannst skrifin skemmtileg og hafði samband við mig.“
„Við hittumst í nýja miðbænum þar sem hún kynnti mér fyrir þessa hugmynd um létta og skemmtilega bók um fjármál og spurði hvort ég vildi vera með. Mér fannst hugmyndin frábær og ákvað að taka slaginn. Mér hefði ekki dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa bók en er Hrefnu mjög þakklátur fyrir þetta skemmtilega tækifæri,“ segir Grétar.
Þakklátur fyrir skilninginn frá eiginkonunni
Samstarfið hjá Grétari og Hrefnu gekk mjög vel. „Hrefna hafði skýra sýn á efnistök bókarinnar og svo unnum við saman að því að setja kjöt á beinin. Ég sá fljótt að Hrefna er vinnuhestur eins og ég og fljótlega voru þetta orðnar nokkur hundruð blaðsíður af sparnaðarráðum, pælingum, viðtölum og allskonar fróðleik.“
„Hún gaf mér bara lausan tauminn og ég datt stundum í svo mikið flæði að ég gat skrifað í marga klukkutíma. Ég er þakklátur fyrir að konan mín sýndi þessu skilning því ég var varla jarðtengdur í þær tíu vikur sem ég sat við skriftir. Hrefna tók svo skrifin saman og fléttaði kaflana mína saman við sína. Í raun var mesta áskorunin að vinna undir mikilli tímapressu því það lá mikið á að hafa bókina tilbúna í prentun í október.“
Létt og skemmtileg bók
Viltu finna milljón? hefur nú þegar fengið mjög góðar viðtökur en ennþá eru þó eftir söluhæstu dagarnir í bóksölu fyrir jól.
„Nokkrir sem ég þekki hafa lofsamað kápuna og finnst hönnunin frábær. Þetta er mjög falleg og eiguleg bók. Sumir hafa sagt mér að þeir hafi hlegið upphátt við lesturinn. Þá er einmitt tilganginum náð, þetta ætti að vera létt og skemmtileg bók. Hvenær hlóstu síðast þegar þú last um fjármál? Það er mikil þörf á aðgengilegri umfjöllun um fjármál enda lognast margir út af þegar þeir fara að lesa um sparnað og fjárfestingar. Fjármál mega alveg vera skemmtileg.“
Með krimma í smíðum
Viltu finna milljón? er fyrsta bókin sem Grétar skrifar en alls ekki sú síðasta. Hann er nú þegar búinn að leggja drög að næstu bók sem er heldur ólík þeirri fyrstu hvað varðar efnistök.
„Ég er kominn með hugmynd að krimma sem hefst með morði í nýja miðbænum. Á spenanum fjallar um valdatafl mjólkurbænda sem leysist upp í ofbeldi og átök. Hann hefur allt: Plott í Pulló, hraða kagga sem sitja fastir á Austurveginum og rjómasmygl. Þegar lögreglan getur ekki leyst ráðgátuna er sjálfur Guðni Ágústsson fenginn til að lesa í Flóann og fletta ofan af spillingu sem teygir sig lengst inn fyrir dyr Matvælaráðuneytisins. Þetta verður líklega þriggja bóka sería,“ segir Grétar að lokum.