Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunet Suðurlands kvöddu í morgun þá 26 sunnlensku fjarnemendur sem brautskráðust frá Háskólanum á Akureyri sl. laugardag.
Að þessu sinni var hópur sunnlenskra fjarnemenda óvenju stór en kandídatarnir nutu lengst af þjónustu Fræðslunets Suðurlands við fjarnámið. Sl. vetur fluttist sú starfsemi til Háskólafélagsins í Glaðheimum.
Flestir kandídatarnir, eða nítján talsins, voru að ljúka námi í hjúkrunarfræði. Þrír viðskipta- og markaðsfræðingar brautskráðust, tveir grunnskólakennarar og tveir leikskólakennarar.
Við brautskráninguna á Akureyri sl. laugardag fékk einn Sunnlendinganna, Sigrún Árnadóttir, viðurkenningu fyrir góðan árangur í grunnskólakennarafræðunum.