Fjölmargt í boði um verslunarmannahelgina

Stærsta ferðahelgi ársins, verslunarmannahelgin, er handan við hornið og má búast við að fjölmargir verði á faraldsfæti. Á Suður-landi verður heilmikið um að vera að venju og mun fólk koma víða saman til skemmtanahalds þó ekki sé um eiginlega útihátíðir að ræða.

Á nokkrum stöðum verður þó boðið upp á skipulagða dagskrá og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fyrir þá sem ekki eru búnir að ákveða hvert skuli halda um þessa miklu ferðahelgi er hægt að finna yfirlit yfir sunnlenskar samkomur í nýjasta tölublaði Sunnlenska. Hér að neðan er aðeins stiklað á mjög stóru:

Edrúhátíð SÁÁ á Laugalandi í Holtum
Fjölskylduhátið er ræða þar sem bæði börn og fullorðnir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Brekkusöngur, varðeldur, morgunnyoga, íþróttamót, barnaböll og fyrirlestrar. KK og Maggi Eiríks, Helgi Valur, Sísí Ey og Sniglabandið svo einhverjir séu nefndir.

Kotmót í Kirkjulækjarkoti
Boðið er upp á vandaða dagskrá fyrir alla aldurshópa en samhliða Kotmótinu fer sérstakt Barnamót fram. Aðalræðumaðurinn á Kotmótinu verður Paul Wever en hann þykir eftirsóttur predikari og kennari í Biblíuskólum. Auk þess verður boðið upp á Biblíulestra, brauðsbrotningu og fjölskyldusamkomur.

Úthlíð
Undanfarin ár hefur verið margt um manninn í Úthlíð um verslunarmannahelgina. Eins og undanfarin ár verður boðið upp á brekkusöng við varðeld auk þess sem skemmtistaðurinn Réttin verður opin alla helgina. Þar munu koma fram trúbadorar og Hljómsveitin Vírus.

Úlfljótsvatn
Það verður líf, fjör og læti á Úlfljótsvatni þar sem margt verður í boði fyrir unga jafnt sem aldna. Börnin geta til dæmis farið í báta, klifurturninn, vatnasafarí, hoppukastala, kennslu í frisbígolfi og skátasmiðjur.

Traktorstorfæran á Flúðum
Fjölbreytt dagskrá verður á Flúðum í Hrunamannahreppi eins og fyrri ár. Meðal dagskrálíða verður Heimsmeistarakeppnin í traktorstorfæru og Furðubátakeppnin þar sem unga kynslóðin siglir niður Litlu-Laxá á furðulegum bátum. Þá verða Ljótu Hálfvitarnir með tvenna tónleika í Félagsheimilinu og stanslaust stuð verður á Útlaganum.

Fyrri greinÓskar er skattakóngur Suðurlands
Næsta greinHarður árekstur á Selfossi