Oddvitar Framsóknar og óháðra, Miðflokksins, Áfram Árborg og Samfylkingarinnar hafa ákveðið að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta í Sveitarfélaginu Árborg.
„Úrslit kosninga sýna að kjósendur í Sveitarfélaginu Árborg hafa hafnað áframhaldandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins og því eðlilegt að látið sé reyna á að nýr meirihluti verði myndaður án aðkomu hans,“ segir í fréttatilkynningu frá oddvitum flokkanna framboðanna fjögurra.
„Á meðan á þeim viðræðum stendur munum við ekki ræða við aðra flokka um myndun nýs meirihluta.“
D-listinn tapaði tæpum 13%
D-listinn fékk 38,3% atkvæða í kosningunum og fjóra bæjarfulltrúa, tapaði einum. Fylgi D-listans minnkaði um tæp 13% frá kosningunum 2014. Samfylkingin fékk 20% atkvæða og hélt sínum tveimur fulltrúum, Framsókn og óháðir héldu sömuleiðis sínum eina fulltrúa með 15,5% atkvæða. Miðflokkurinn fékk 10,7% atkvæða og einn fulltrúa og Áfram Árborg fékk 8,5% og einn fulltrúa.