Liðin vika var með rólegra móti hjá lögreglunni á Hvolsvelli en þó voru fjögur umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar í vikunni.
Á mánudag var ekið á kind á Fljótshliðarvegi við Butru, kindin drapst við óhappið og minniháttar skemmdir urðu á ökutæki. Á Hellu var vinnuvél bakkað á bifreið og var tjónið óverulegt.
Þá valt bifreið í Meðallandi á þriðjudag, mikil hálka var á slysstað en ekki urðu slys á fólki og bifreiðin skemmdist lítið.
Á föstudag var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Suðurlandsvegi við Lyngás með þeim afleiðingum að bifreiðin sem ekið var á valt og skemmdist nokkuð. Ökumenn beggja bíla sluppu með skrekkinn.
Þá voru tíu ökumenn kærðir í vikunni fyrir að aka of hratt og þeir sem hraðast óku voru mældir á 137 og 134 km/klst hraða.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögreglumenn hafa tekið eftir því að óvenju margar bifreiðar eru með lélegan ljósabúnað og eru ökumenn hvattir til að yfirfara ljósabúnað bifreiða sinna áður en lagt er af stað. Það getur skipt sköpum að hafa ljósin í lagi, sér í lagi nú yfir dimmasta tíma ársins og ljóst er að forða má mörgum slysum með því að yfirfara ljósabúnaðinn reglulega.
Ennfremur vilja lögreglumenn minna alla gangandi vegfarendur á að nota endurskinsmerki.