Fjögur umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi á rúmum tveimur klukkutímum á mánudaginn í síðustu viku.
Síðdegis þennan dag myndaðist skyndilega mikil hálka á þjóðvegunum sem í einhverjum tilvikum átti hlut að máli. Fyrst valt bíll á Þjórsárdalsvegi en ökumaðurinn, sem var einn á ferð slapp með minniháttar meiðsli. Klukkan 16:45 valt bíll á Biskupstungnabraut og slapp ökumaðurinn ómeiddur og níu mínútum síðar valt bíll á Eyrarbakkavegi. Þar var á ferðinni par með tvö börn og voru þau öll flutt á slysadeild en meiðslin ekki talin alvarleg.
Á sjötta tímanum varð síðan harður árekstur jeppa og jepplings sem komu úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi við Kjartansstaði í Flóa. Jepplingurinn valt og endaði á hvolfi úti í vatnsfylltum skurði en ökumaðurinn slapp með skrekkinn. Ökumaður jappans slasaðist hins vegar alvarlega og klemmdist fastur í bílnum. Slökkviliðsmenn losuðu manninn úr bílnum en farþegi í bílnum slapp lítið meiddur.
Svo virðist sem ökumaður jepplingsins hafi verið að aka fram úr röð bifreiða og ekki náð að ljúka framúrakstrinum og því lent framan á jeppanum. Tveir aðrir bílar skemmdust vegna braks sem þeyttist frá bílunum í árekstrinum.