Fjögurra mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag rúmlega þrítugan Selfyssing í fjögurra mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi í bænum.

Tveir menn voru ákærðir í málinu, fyrir sameiginlega vörslu á 28 kannabisplöntum, sem ræktaðar voru í sölu- og dreifingarskyni en fíkniefnin fundust við leit lögreglu í september í fyrra. Samtals vógu plönturnar 566,47 gr auk þess sem 341,65 gr af kannabislaufum voru í íbúðinni.

Mennirnir játuðu báðir sök og var annar þeirra dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en sá var með hreint sakavottorð. Hinn hafði áður hlotið dóma, m.a. fyrir vörslu og sölu fíkniefna og sá Sólveig Ingadóttir, aðstoðarmaður dómara, því ekki ástæðu til að skilorðsbinda refsingu hans. Maðurinn var því dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi.

Auk þess var mönnunum gert að greiða rúmar 179 þúsund krónur í sakarkostnað auk þóknunar til verjenda sinna.

Fyrri greinKrókur á móti bragði hjá meirihlutanum
Næsta greinLeituðu að öldruðum manni við Eyrarbakka