Eiginmaður konunnar sem lenti í sjónum við Kirkjufjöru í hádeginu í dag og tvö stálpuð börn þeirra lentu öll í sjónum. Konan náði hins vegar ekki að komast í land.
Kl. 12:53 fékk Neyðarlínan tilkynningu um að einhver hópur fólks hafi lent í sjónum við Reynisfjöru en allir nema einn komist í land. Í ljós kom að slysstaður var í Kirkjufjöru skammt austan Dyrhólaeyjar og var björgunarliði þá stefnt þangað.
Konan fannst í fjörunni kl. 14:01 og er nú verið að flytja hana með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.
Eiginmaður hennar og börnin verða flutt til Reykjavíkur með sjúkrabifreið en þau munu vera óslösuð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.