Fjóla Hrund Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur frá Hellu, gefur kost á sér í 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Fjóla Hrund sendi frá sér í dag. Hún er 28 ára gömul, fædd og uppalin á Hellu.
Fjóla Hrund er stúdent af félagsfræðibraut úr Fjölbrautaskóla Suðurlands, er með BA-próf í Stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er á seinna ári í MPA meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og stundar þar fjarnám.
„Ég hef starfað töluvert innan Framsóknarflokksins. Ég hef setið í fimm ár í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna og starfa þar nú sem gjaldkeri, sit í miðstjórn flokksins, er í stjórn Framsóknarfélags Rangæinga, er varaformaður Kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, jafnframt hef ég setið í jafnréttisnefnd flokksins. Síðustu þrjú og hálft ár hef ég verið fyrsti varaþingmaður í Suðurkjördæmi fyrir flokkinn,“ segir Fjóla Hrund í tilkynningunni, en hún skipaði 5. sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum.
„Þau mál sem að ég tel að séu mikilvæg á næsta kjörtímabili er innviðauppbygging í ferðaþjónustu, efling heilsugæslunnar út á landi, bætt samgöngukerfi á landsbyggðinni ásamt því að gera fólki kleift að stunda nám óháð búsetu, efnahag og aldri,“ segir Fjóla Hrund ennfremur.