Fjóla St. Kristinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Árborg, hefur verið ráðin í starf sveitarstjóra í Grímsnes- og Grafningshreppi. Ráðningin var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar í morgun og stendur hún út kjörtímabilið til ársins 2026.
Hún tekur við starfinu af Iðu Marsibil Jónsdóttur sem samdi um starfslok í síðustu viku.
Fjóla er fædd á Selfossi 1972 og býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Hún er gift Snorra Sigurðarsyni fasteignasala og saman eiga þau þrjú börn, tengdadóttur og eitt barnabarn.
Fjóla er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands, Bsc í viðskiptafræði, og er vottaður fjármálaráðgjafi ásamt því að hafa lokið kennsluréttindum á meistarastigi.
Starfsferill Fjólu er fjölbreyttur og býr hún yfir reynslu á sviði sveitarstjórnarmála en síðastliðin tvö ár gegndi Fjóla stöðu bæjarstjóra í Árborg. Þar áður starfaði hún í tæp 7 ár hjá Landsbankanum á Selfossi, síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Þá hefur hún unnið á velferðarsviði Árborgar og bar ábyrgð á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Síðustu ár hefur Fjóla kennt námskeiðið Velferð í fjármálum við Fræðslunet Suðurlands auk þess að kenna fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Fjóla hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í margvíslegri sjálfboðavinnu.
Sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps fagnar ráðningu Fjólu og hlakkar til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru. Fjóla mun hefja störf þann 1. febrúar næstkomandi.
„Ég er mjög spennt að hefja störf sem sveitarstjóri Grímsness- og Grafningshrepps og hlakka til að vinna með sveitarstjórn, íbúum, starfsfólki og fasteignaeigendum sveitarfélagsins að áframhaldandi uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins. Það er mér mikill heiður að taka við starfi sveitarstjóra en ég tel mikil tækifæri felast í samfélaginu og sé spennandi tíma framundan,“ sagði Fjóla eftir að ráðning hennar var samþykkt.