Fjölbreytt dagskrá verður á þjóðhátíðardaginn á Selfossi en fastir liðir eins og skrúðgangan fara ekki fram vegna samkomutakmarkana.
Að sögn Einars Björnssonar, sem hefur veg og vanda að framkvæmd hátíðarinnar að þessu sinni, er dagskrá dagsins jafnvel fjölbreyttari en venjulega þrátt fyrir þær fjöldatakmarkanir sem í gildi eru vegna COVID-19.
„Vegna fjöldatakmarkana er lögð verður áhersla á að hafa dagskránna dreifða um bæinn og stílaða inn á mismunandi aldurshópa. Frítt er á alla viðburði og afþreyingu á hátíðinni,“ segir Einar.
„Ein af nýjungunum á hátíðinni er kvöldvaka eldri borgara í Mörk við Grænumörk þar sem fram koma meðal annars Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Guðmundsson, Jóhannes eftirherma og félagar úr Harmonikufélagi Selfoss. Mjög skemmtilegur viðburður,“ segir Einar.
Af öðrum liðum dagskrárinnar má nefna björgunarsýningu við Björgunarmiðstöðina á Selfossi, skemmtidagskrá í Sigtúnsgarði, tónleika í Tryggvagarði og sundlaugarball í Sundhöll Selfoss. Þá mun Selfossrútan halda sinni venjubundnu áætlun um bæinn.