Fjölbreytt fjölskyldudagskrá á sjómannadaginn

Frá hátíðarhöldunum í fyrra. Ljósmynd/Mannbjörg

Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Þorlákshöfn í gegnum tíðina og í ár verður engin breyting þar á. Sjómannadagurinn er sunnudaginn 2. júní.

Það helsta sem verður um að vera þessa helgina er dagskrá á bryggjunni sem Björgunarsveitin Mannbjörg stendur fyrir. Hún byrjar á skemmtisiglingu kl. 12:30 þar sem gestum gefst kostur á að fara í valda fiskibáta og sigla stutta leið út fyrir höfnina. Þegar bátarnir snúa aftur í höfnina tekur við dagskrá sem gengur út á að virkja gesti til að taka þátt í dagskráliðum eins og koddaslag, trampolínstökki út í sjó og svo er glænýr liður sem heitir sjó-boðsund.

Það hefur myndast mikil stemning í þorpinu fyrir sjó-boðsundinu þar sem áskoranir hafa gengið á milli fyrirtækja í bæjarmiðlinum hafnarfrettir.is þar sem hver skorar á annan að mynda lið og keppa í þessum nýja dagskrálið. Það verður spennandi að sjá hvaða fyrirtæki í bænum verður það fyrsta til að vinna sjó-boðsundið, en á meðal keppenda er bæjarstjóri Ölfuss Elliði Vignisson og skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn, Ólína Þorleifsdóttir.

Dagskráin á bryggjunni verður á milli 13-15 og þar má finna hoppukastala, candy floss, andlitsmálun og hinar geysivinsælu humlur, sem er humar í pylsubrauði og er það fjáröflun hjá körfuknattleiksdeild Þórs.

Eftir dagskrána á bryggjunni verður hefðbundið sjómannadagskaffi í ráðhúsinu sem er fjáröflun fyrir Björgunarsveitina Mannbjörg.

Að auki verða Black Beach Tours með tilboð á Rib safari ferðum og Jaðarsport verður með kynningu á sjóbrettum við höfnina á meðan á dagskrá stendur.

Þessu verður svo ölluð þjófstartað með léttri trúbador stemningu á Hendur í höfn á laugardagskvöldinu.

Fyrri greinRangárþing ytra og FBSH gera samstarfssamning
Næsta grein„Gott fyrir jörðina að planta trjám“