Opnanir á sýningum, tónleikar, leikverk og fleira var meðal þess sem boðið var uppá á fyrsta degi menningarhátíðarinnar Vors í Árborg í gær.
Fjöldi sýninga opnaði í dag og má þar nefna sýningu Elfars Guðna og Gussa í menningarverstöðinni á Stokkseyri, Gallerý Regínu og Halls Karls á Eyrarbakka og Ragnars Gestssonar í Hjólbaraðverkstæði Magnúsar á Selfossi.
Þrjár ljósmynda- og mynlistarsýningar opnuðu síðan saman á Hótel Selfoss en það eru „Óður til Fjallsins“ eftir Andrés Sigmundsson, „Af og á sunnlenskum vegum“ eftir ljósmyndaklúbbin Blik og „Það sem fangar augað“ eftir Valdimar Jónsson. Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar, opnaði sýninguna að viðstöddu margmenni og systkinin Selma og Sigurður Ágústsbörn spiluðu og sungu nokkur lög.
Ungir listamenn stigu á stokk í félagsmiðstöðinni Zelsíuz en þar flutti sviðslistaklúbburinn Jón og leikhópur 7.bekkjar Vallskóla nokkur stutt verk.
Dagurinn endaði á tónleikum gítarsveitar Tónlistarskóla Árnesinga sem haldnir voru í húsnæði skólans og hátíðarsamkomu til heiðurs Jóni Inga Sigurmundssyni, listmálara og tónlistarkennara í Gónhól á Eyrarbakka. Í Gónhól komu fram Karen Dröfn Hafþórsdóttir ásamt undirleikaranum Önnu Rún Atladóttur og syskinin Edda Karen og Janus Bjarki Birgisbörn.
Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og fjöldi skemmtilegra viðburða bíða alla helgina.