Fjölbreytt úrval í nýrri verslun í Sunnumörk

Lóa í nýju versluninni í Sunnumörk. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Verslunin Icemart Souvenirs opnaði í síðustu viku í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði. Þar má finna fjölbreytt úrval af útivistarfatnaði og minjagripum og ýmislegt fleira.

„Við sáum strax þegar Upplýsingamiðstöðin fór úr húsinu að það vantaði eitthvað í þetta bil. Við ræddum við stjórnendur Icewear og þau tóku svo vel í þetta að úr varð þetta fína samstarf,“ segir Ólöf Ingibergsdóttir, eigandi Icemart Souvenirs, í samtali við sunnlenska.is.

Verslunin er ekki síður fyrir Íslendinga en erlenda ferðamenn. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Elskar að þjónusta fólk
Ólöf, eða Lóa eins og hún er ávallt kölluð, var áður með verslunina Ramla store sem einnig var staðsett í Sunnumörkinni og seldi meðal annars vörur frá Iceware. Þeirri verslun hefur nú verið lokað samhliða opnun Icemart Souvenirs. Lóa hefur einnig rekið bakaríin Almar bakari ásamt eiginmanni sínum Almari Þór Þorgeirssyni síðastliðin 15 ár og veit því sitthvað um rekstur fyrirtækja.

Í Icemart Souvenirs er meðal annars hægt að fá útivistarfatnað, minjagripi, sundfatnað, handklæði, sokka, göngustafi og ullarnærfatnað – svo fátt eitt sé nefnt. Verslunin er opin frá klukkan 9 til 18 alla virka daga og frá klukkan 9 til 16 um helgar.

„Við opnuðum í síðustu viku og höfum við fengið frábærar móttökur. Enda eru vörurnar góðar og á sanngjörnu verði. Ég hlakka mikið til að taka á móti Sunnlendingum og gestum þessa lands. Ég elska að þjónusta fólk enda hef ég verið að því síðastliðin 15 ár í bakaríinu okkar, “ segir Lóa að lokum.

Fjölbreytt úrval af skemmtilegum minjagripum má finna í Icemart Souvenirs. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinFjórði Íslandsmeistaratitill Valgerðar í röð
Næsta greinÁrborg upp í 3. sætið