Í liðinni viku voru átta ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu, þar af fjórir innanbæjar á Selfossi.
Sá sem hraðast ók innanbæjar var mældur á 77 km/klst hraða. Hinir fjórir voru á 90 km/klst vegi og sá sem ók hraðast var á 120 km/klst hraða.
Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti og einn fyrir að gæta þess ekki að farþegi yngri en 15 ára notaði viðeigandi öryggisbúnað. Þá var einn farþegi í framsæti kærður fyrir að nota ekki belti. Í dagbók lögreglunnar á Selfossi segir að þessi fjöldi öryggisbeltislausra valdi lögreglunni áhyggjum enda löngu orðið ljóst hversu mikilvægt er að nota þennan búnað. Sektin við að vera án öryggisbeltis er 10.000.- krónur en 15.000.- ef þess er ekki gætt að farþegi undir 15 ára aldri noti viðeigandi öryggis- eða verndarbúnað.
Eitt barn var sent heim með reiðhjól sitt í taumi þar sem að viðeigandi hjálmur var ekki með í för. Foreldrar eru hvattir til þess að huga að börn þeirra noti hjálma og eins eru t.d. íþróttaþjálfarar barna hvattir til að fylgjast með því að þau börn sem koma hjólandi á æfingu noti hjálma.
Þrír voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Um var að ræða tvo karlmenn, annan tvítugan og hinn sextugan og tvítuga konu. Öll sluppu þeir slysalaust frá því að þessu sinni en slíkt er ekki sjálfgefið.
Þá varð tjón á vörubifreið þegar hún valt þar sem verið var að sturta malarhlassi af henni við Fögruhellu á Selfossi þann 12. apríl. Fjögur önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar, öll minniháttar og án meiðsla.