Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu í Vík í Mýrdal þar sem þjóðvegi 1 hefur verið lokað vegna veðurs.
Mikill fjöldi ferðamanna er á svæðinu og opnaði Rauða kross deildin í Vík fjöldahjálparstöð af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi eru rúmlega 100 manns nú þegar komin þangað og eitthvað af fólki á leiðinni. Allt hefur gengið vel og væsir ekki um neinn í vistinni.
Veginum undir Eyjafjöllum og um Reynisfjall var lokað um miðjan dag vegna óveðurs. Þar má búast við austan 18-25 m/s fram á kvöld. Áætlað er að veðrið gangi niður þegar líður á nóttina.
UPPFÆRT KL. 08:20: Vegurinn var opnaður aftur seint í gærkvöldi og fóru þá flestir úr húsi, en um tuttugu manns gistu í fjöldahjálparstöðinni.