Jóladansleikur Lionsklúbbs Hveragerðis og Lionsklúbbsins Eden fyrir börn í Hveragerði og nágrenni fór fram á Hótel Örk á öðrum degi jóla. Ríflega 350 manns sóttu dansleikinn.
Hljómsveit lék fyrir dansi, jólasveinar mættu og dönsuðu með börnunum kringum jólatréð og færðu þeim svo smágjafir. Var dansleikurinn í hvívetna vel heppnaður. Hljómsveitina skipuðu þau Júlíus Kolbeins trommur, Rögnvaldur Pálmason gítar, Vilhjálmur Roe bassi, Kristinn G. Kristjánsson harmonikka og Ragnheiður Blöndal söngur.
Ýmis fyrirtæki í bænum og víðar hafa styrkt samkomu þessa með styrkjum og framlögum af ýmsu tagi frá upphafi vega eða yfir 20 ár. Má þar helst nefna Hverabakarí sem hefur stutt dyggilega við bakið á klúbbunum með dýrindis bakkelsi. Lionsklúbbarnir kunna þeim hjónum Sigurjóni og Distu hjá Hverabakaríi bestu þakkir fyrir. Hótel Örk hefur á sama tíma skaffað dúkaðan salinn, öll tæki og tól, kaffið og stundum starfsfólk til að upparta og uppvaska. Í tilkynningu frá Lionsklúbbunum segir að stuðningur þessara aðila sé fullkomlega ómetanlegur og hefði viðburðurinn ekki verði framkvæmanlegur án hans.
En fleiri fyrirtæki hafa stutt klúbbana dyggilega frá upphafi og eiga allar þakkir skyldar. Að öðrum ólöstuðum má þar helst nefna Hveragerðisbæ, Dvalarheimilið Ás, Heilsuhæli HLFÍ, Kjörís, Arion banki, Heilsugæsluna og Leikfélag Hveragerðis.