Alls voru 59 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku og nálgast nú fjöldi kærðra ökumanna það að vera sá sami og allt árið í fyrra.
Af þessum 59 voru 27 sem duttu inn í radar hjá umferðareftirlitsdeildinni sem var í eftirlitsferð austur eftir Suðurlandinu í liðinni viku til að gæta að aksturs og hvíldartíma ökumanna stórra bíla og vigta og ástandsskoða ef tilefni væri til.
Eftirlit þetta tilheyrði áður Samgöngustofu og höfðu eftirlitsmenn þar ekki heimild til að sinna hraðakstursmálum en ljóst er að sú tilhögun að hafa lögreglumenn við þessa vinnu skilar sér með þessum hætti og þar með meiri sýnilegri löggæslu.
Þeir fóru reyndar víðar og kyrrsettu m.a. leigubifreið við flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem að í ljós kom að rekstur viðkomandi hafði verið stöðvaður af skattayfirvöldum og því ekki fyrir hendi rekstrarleyfi.