Fjöldi slysa kom inn á borð Lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku, flest á ferðamannastöðum í umdæminu. Meiðsli voru minniháttar í flestum tilfellum.
Fossinn Gljúfrabúi, Kerið, Hólaskjól, Lakavegur, Fimmvörðuháls, Álftavatn, Jökuldalir, Svínafellsjökull, Dyrhólaey, Sundhöll Selfoss og íþróttahúsið í Hveragerði eiga kannski ekki margt sameiginlegt en í liðinni viku urðu slys á öllum þessum stöðum sem leiddu til útkalla, ýmist bara hjá lögreglu og sjúkraflutningum en björgunarsveitir voru kallaðar til aðstoðar á hálendinu í nokkrum þessara tilfella.
Meiðsli voru í flestum tilfellum minniháttar, mar og tognanir en einnig brot á útlimum.
Að auki hefur hálendisgæsla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sinnt fjölmörgum aðstoðarbeiðnum án þess að lögregla komi þar að nema með tilkynningu vegna skráningar slysa.
Þá valt bifreið á Landvegi, ofan Galtalækjar, á nýlagðri klæðningu á föstudag í síðustu viku. Tvennt var í bílnum og flutti þyrla Landhelgisgæslunnar báða á sjúkrahús í Reykjavík. Annar aðilinn var með áverka á hrygg en meiðsl hins voru minniháttar. Um erlenda ferðamenn var að ræða.