Fjölgun í öllum sveitarfélögum nema einu

Sunnlendingum fjölgaði um 2,2% á síðasta ári og voru 20.529 í árslok. Fjölgun varð í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi nema einu.

Hagstofan hefur gefið út tölulegar upplýsingar um fjölda landsmanna þann 1. janúar 2016. Í samantekt sunnlenska.is eru taldir íbúar í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu.

Íbúum fjölgaði í öllum sveitarfélögum Suðurlands á síðasta ári, nema í Rangárþingi eystra. Þar fækkaði íbúum um -1,4% og voru þeir 1.526 í árslok, hafði fækkað um 22.

Mesta fjölgunin var hins vegar í Mýrdalshreppi, þar sem íbúum fjölgaði um 9,4%. Íbúar Mýrdalshrepps voru 525 þann 1. janúar sl. og hafði fjölgað um 45 árið 2015. Mýrdalshreppur er nú 9. fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurlandi og fer uppfyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp.

Einnig varð mikil fjölgun í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þar fjölgaði um 7,9%, en íbúar GOGG voru 465 í árslok og hafði fjölgað um 34.

Mesta tölulega fjölgunin var eins og oft áður í Árborg. Þar fjölgaði íbúunum um 154, eða 1,9%. Íbúar Árborgar voru 8.206 síðastliðinn nýársdag. Hvergerðingum fjölgaði um 79 og Ölfusingum um 71. Í Hveragerði var íbúatalan 2.463 þann 1. janúar og 1.956 í Ölfusi.

Alls fjölgaði íbúum Suðurlands um 435 á árinu 2015. Fjölgunin á Suðurlandi er 2,2%, sem er vel umfram landsmeðaltal. Landsmönnum fjölgaði allt um 1% og voru Íslendingar búsettir á landinu 332.529 talsins um síðustu áramót.

Íbúafjöldi í sunnlenskum sveitarfélögum 1. janúar 2016:
Sveitarfélagið Árborg 8.206
Hveragerði 2.463
Sveitarfélagið Ölfus 1.956
Rangárþing eystra 1.774
Rangárþing ytra 1.526
Bláskógabyggð 979
Hrunamannahreppur 807
Flóahreppur 619
Mýrdalshreppur 525
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 521
Skaftárhreppur 470
Grímsnes- og Grafningshreppur 465
Ásahreppur 218
SAMTALS 20.529

Fyrri greinAbba í Sleipnishöllinni
Næsta greinViðvaranir vegna slæms veðurs og vatnavaxta