Málefni Sorpbrennslunnar á Kirkjubæjarklaustri voru rædd á fjölmennum fundi í félagsheimilinu Kirkjuhvoli í gærkvöldi.
„Þetta var góður fundur, við vildum fá að heyra staðreyndir og fengum það. Við fengum staðfestingu á því að 90% af díóxíni sem safnast í líkamann er vegna þess að fólk borðar það, hvað útblásturinn frá sorpstöðinni varðar er það ekkert sem við höfum stórar áhyggjur af í dag,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps í viðtali við mbl.is.
Á fundinn mættu Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Þorsteinn Ólafsson dýralæknir og Kristín Linda og Sigríður Kristjánsdóttir frá Umhverfisstofnun.
Oddur Bjarni Thorarensen, íbúi á Klaustri, segir fundinn hafa verið góðan þótt hann hafi enn áhyggjur. „Það kom fram að 2-10% af díóxíni í líkamanum koma við innöndun og að mesta mengun á að vera í 150 m fjarlægð frá stöðinni sem er þá í íbúabyggð. Haraldur viðurkenndi að rannsóknir væru ófullkomnar í sambandi við díóxín en vildi frekar gera lítið úr langvarandi eituráhrifum. Hann taldi samt ástæðu til að gera rannsóknir á fólki á Klaustri,“ segir Oddur við mbl.is en hann hefur undanfarið haldið börnunum sínum heima vegna mengunar frá sorpstöðinni sem er alveg við skólann. „Það kom greinilega fram að það er voðalega lítið vitað og ég er ekki farinn að senda börnin í skólann aftur, enda er enn verið að brenna á daginn.“