Vel á annað hundrað kennarar á Suðurlandi mættu á samstöðufund á Kaffi Selfoss eftir hádegi í dag. Kennararnir óttast atgervisflótta úr stéttinni takist ekki að semja um laun fljótlega.
Í ályktun sem samþykkt var á fundinum ítreka kennarar á Suðurlandi þá kröfu að sveitarfélögin semji við FG um laun sem samræmast ábyrgð og stöðu kennara.
„Kennarar hafa verið samningslausir frá því í maí og ef ekki semst fljótlega óttumst við atgervisflótta úr stéttinni með tilheyrandi auknu álagi á þá sem eftir verða,“ segir í ályktuninni.
„Ljóst er að tíminn er af skornum skammti og hraða verður samningaviðræðum. Rétt er að ítreka að ábyrgðin er ekki kennara, sveitarfélögin ein bera ábyrgð því að halda uppi skólahaldi. Ef þau telja sig ekki í stakk búin til þess er þeim uppálagt að óska aðkomu ríkisins. Við kennarar munum ekki lengur hlaupa undir bagga með þeim,“ segir ennfremur í ályktuninni.