Flugbjörgunarsveitin á Hellu hélt upp á 60 ára afmæli sitt í dag og var fjölmenni í afmælisveislunni í húsnæði sveitarinnar við Dynskála.
Svanur Sævar Lárusson, formaður sveitarinnar, setti samkomuna og rakti sögu sveitarinnar í stuttu máli. Nokkrir frumkvöðlar og einlægir áhugamenn um björgunarmál stofnuðu sveitina árið 1951 í kjölfar Geysisslyssins á Vatnajökli árið 1950.
Sveitin er ein sú öflugasta á landsvísu og verkefni hennar hafa verið fjölbreytt. Talsvert hefur reynt á sveitina að undanförnu en í dag lauk einu umfangsmesta björgunarverkefni síðari ára þar sem leitað var að sænskum ferðamanni á Sólheimajökli. Þá hafa síðustu þrjú eldgos hér sunnan lands reynt mikið á mannskapinn sem stóð vaktina á meðan á gosi og öskuhreinsun stóð.
Kjartan Þorkelsson, sýslumaður, kom einmitt inn á þetta í ávarpi sínu og þakkaði hann sveitinni á Hellu og öllum öðrum björgunarsveitum í umdæmi sínu fyrir öflugt starf við erfiðar aðstæður á undanförnum misserum.
Auk Kjartans stigu þeir í pontu Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Báðir lýstu þeir ánægjulegu samstarfi sínu við sveitina og hvöttu félagsmenn til frekari dáða.
Gísli Einarsson, sjónvarpsmaður, fór á kostum sem veislustjóri en að loknum ræðuhöldum nutu gestir glæsilegra veitinga. Myndir og munir úr starfi sveitarinnar prýddu veggi og gólf og var þar margt forvitnilegt að skoða yfir kaffibollanum.
Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar, færði FBSH veðurstöð fyrir hönd slysavarnafélagsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Svanur formaður tók við óvæntri gjöf frá þeim Sigrúnu Örnu og Örnu Margréti sem færðu sveitinni ágóða af tombólu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl