Það verður mikið um að vera á Flúðum um helgina þar sem boðið er upp á fjölbreytta fjölskyldudagskrá.
Í dag og næstu tvo daga verður Smáborgarakvöld að hætti Hreppakvenna í Bragganum í Birtingaholti. Ljótu hálfvitarnir spila í félagsheimili Hrunamanna og Bjartmar Guðlaugsson og Bergrisarnir loka kvöldinu á Útlaganum ásamt Rokksveit Keflavíkur.
Á laugardag er m.a. hin landsfræga traktorstorfæra, Ljótu hálfvitarnir stíga aftur á stokk í félagsheimilinu og Á móti sól spilar á Útlaganum.
Sunnudagurinn er undirlagður af furðubátakeppni á Litlu-Laxá en einnig sýnir Leikhópurinn Lotta leikritið um Gilitrutt. Strandblakmót verður á tjaldsvæðinu og söngkvöld í Snússu. Kl. 22 verður varðeldur og brekkusöngur í Torfdal og Á móti sól slær botninn í gleðina á Útlaganum
Bændamarkaðurinn er opinn alla helgina, sömuleiðis Leikur&List á Laugalandi og Bragginn í Birtingaholti. Veitingastaðir eru nokkrir í hreppnum, golfvellir og sundlaug svo að engum ætti að leiðast.