„Já, það var samþykkt að hækka laun hafnarstjórans um 25 prósent en það var niðurstaða eftir launaviðtal, sem hann fór í. Við erum ekkert hrædd við að taka fólk í launaviðtöl, starfsmenn eiga rétt á því.
Hækkunin var samþykkt samhljóða í hafnarnefnd og með fimm atkvæðum gegn tveimur í bæjarstjórn,“ segir Sveinn Samúel Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss aðspurður um umrædda launahækkun hafnarstjórans í Þorlákshöfn.
Sveinn telur ákvörðunina ekki fordæmisgildandi. „Nei, nei, við erum ekki að fara að hækka alla forstöðumenn um 25 prósent, það kemur ekki til greina.“ Hafnarstjórinn, Hjörtur Bergmann Jónsson á Læk í Ölfusi tók við starfinu fyrir um ári síðan.
Ármann Einarsson, sem situr í minnihlutanum í bæjarstjórn, greiddi atkvæði gegn launahækkuninni ásamt Þrúði Sigurðardóttur. „Ég er mjög ósáttur við launahækkunina og skil ekki hvernig það er hægt að taka svona einn starfsmann út og hækka launin hans með þessu móti. Nú er hann með um 800 þúsund krónur á mánuði með öllu, þetta er óskiljanlegt,“ segir Ármann. „Ég hefði viljað að málið yrði fyrst tekið fyrir í bæjarráði áður en komið var með samninginn tilbúinn til staðfestingar á síðasta bæjarstjórnarfundi. Það þótti mér skrýtið að sjá,“ bætir Ármann við.