Leikfélag Selfoss frumsýndi í kvöld leikritið Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna að sýningu lokinni.
Leikritið fjallar um ævintýri bræðranna Jónatans og Karls Ljónshjarta í landinu Nangijala og baráttu íbúanna við ógnvaldinn Þengil og drekann Kötlu. Bróðir minn Ljónshjarta er eitt þekktasta verk Lindgren og óhætt að segja að leikfélagar á Selfossi ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.
Útkoman er stórglæsileg og voru gestir í leikhúsinu við Sigtún í kvöld á einu máli um ágæti sýningarinnar. Tuttugu leikarar fara með fjölmörg hlutverk í sýningunni en alls koma yfir fimmtíu manns að uppsetningunni á einn eða annan hátt.
Aðalhlutverkin eru í höndum ungra leikara; Baldvins Alan Thorarensen og Bjarka Þórs Sævarssonar sem báðir eiga stjörnuleik í krefjandi hlutverkum bræðranna Karls og Jónatans.