Fjórar bílveltur urðu með skömmu millibili í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í dag. Erlendir ferðamenn voru í þremur bílanna sem ultu.
Fyrst varð bílvelta við Fjallsárlón um kl. 11:15. Erlendir ferðamenn voru í bílnum og hlutu þeir minni háttar meiðsli.
Laust fyrir klukkan 12 varð önnur bílvelta við afleggjarann að Hótel Rangá. Íslendingur var þar á ferðinni og var hann fluttur á brott með sjúkrabifreið. Lögreglan veit ekki um meiðsli hans að svo stöddu.
Tilkynnt var um þriðju bílveltuna á Þingvallarvegi við Öxará klukkan 12.30. Ítalskur ferðamaður var í bílnum en hann slasaðist ekki. Um fimm mínútum síðar var tilkynnt um bílveltu við Skaftafell. Erlendir ferðamenn voru í bílnum.
Þrír voru einnig teknir fyrir of hraðan akstur af lögreglunni á Suðurlandi í dag. Sá sem fór hægast ók á 116 km hraða á klukkustund en sá sem ók hraðast var á 125 km hraða á klukkustund. Allt voru þetta erlendir ferðamenn og voru þeir stöðvaðir í nágrenni við Vík í Mýrdal.
Morgunblaðið greinir frá þessu