Alls var fjórum milljónum króna af Ferðagjöfum ráðstafað á Suðurlandi í gær, þarf af tveimur milljónum króna á veitingastöðum.
Eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun var vitlaust að gera á veitingastöðum á síðasta degi Ferðagjafarinnar 2020. Tveimur milljónum króna var ráðstafað í gær á sunnlenskum veitingastöðum, einni milljón í gistingu og einni milljón í afþreyingu.
Frá því Ferðagjöfin var tekin í notkun í fyrra hafa Íslendingar ráðstafað 139 milljónum króna hjá sunnlenskum fyrirtækjum, mest rúmlega 7,1 milljón króna á Hótel Örk.
Vinsælustu staðirnir á Suðurlandi eru í þessari röð; Hótel Örk, Hótel Geysir, Hótel Selfoss, Laugarvatn Fontana, Friðheimar, Kaffi Krús, Stracta hótel, Hótel Rangá og Fjöruborðið á Stokkseyri. Þá eru ótalin fyrirtæki með starfsemi á landsvísu; svosem N1, Olís og KFC.
Ný ferðagjöf ársins 2021 tók gildi í dag, þann 1. júní og gildir hún til 30. september næstkomandi. Og eins og sú fyrri er hún 5.000 krónur til allra sem hafa lögheimili á Íslandi og eru fæddir 2003 eða fyrr.