Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli voru kallaðar út í dag þegar tilkynning barst um slasaðan fjórhjólamann við Glaðheima á Fjallabaksleið nyrðri. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð á staðinn.
Það var ferðafélagi hins slasaða sem hringdi í Neyðarlínu eftir aðstoð. Um 25 manns frá björgunarsveitum fóru af stað en þyrla LHG var komin með manninn um borð um klukkan 15:40 og er að flytja hann á sjúkrahús í Reykjavík.
Björgunarsveitir munu þó fara á slysstað með lögreglu er sinnir rannsókn slyssins, auk þess sem þær munu sækja fólk sem er á vettvangi og flytja fjórhjól hins slasaða til byggða.
Veður er gott á svæðinu, logn og 2°C frost og léttskýjað.