Fjórir fengu umhverfisverðlaun

Umhverfisverðlaun Rangárþings ytra voru afhent í Árhúsum á Hellu í síðustu viku.

Verðlaunin voru veitt fyrir snyrtilegustu lóðir og garða í sveitarfélaginu og voru staðirnir opnir almenningi um síðustu helgi.

Verðlaunað var fyrir fjóra flokka; Snyrtilegasta lögbýlið er Skeiðvellir í Holtum en þar búa Sigurður Sæmundsson og Lisbeth Sæmundsson.

Fegursti garður í dreifbýli er á Hávörðukoti, lóð Sigurðar G. Blöndal og Irmu Blöndal.

Fegursti garður í þéttbýli er við Laufskála 6 á Hellu, garður í eigu Áslaugar Jónasdóttur.

Gistiheimilið Brenna og Hekla handverkshús, Þrúðvangi 35 – 37 á Hellu fengu sameiginleg verðlaun fyrir snyrtilegustu lóð fyrirtækis/stofnunar innan sveitarfélagsins en það voru þau Ragnheiður Jónasdóttir og Erlingur Gíslason, sem tóku á móti þeim verðlaunum.

Það var samgöngu-, hálendis- og umhverfisnefnd Rangárþings ytra, sem stóð fyrir verðlaunaafhendingunni.

Fyrri greinGóður gangur í Rangánum
Næsta greinHlaup að hefjast í Skaftá