Þrír karlmenn og ein kona sitja nú í fangageymslum lögreglunnar á Selfossi eftir að hafa ruðst inn í íbúðarhús í Hveragerði í nótt og veist að húsráðendum.
Fólkið var í annarlegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu. Þau höfðu í hótunum við húsráðendur, sambýlisfólk á fimmtugsaldri og þóttust vera að innheimta einhverja skuld.
Húsbóndanum tókst að koma fólkinu út og kalla á lögreglu, sem fann fólkið við fíkniefnaneyslu í heimahúsi í bænum skömmu síðar. Lögreglan telur þau ekki hafa átt neitt sökótt við húsráðendur.
Fjórmenningarnir bíða nú skýrslutöku sem fer fram í dag.