Lúðrasveit Þorlákshafnar hélt stórbrotna tónleika í tilefni af 40 ára afmæli sínu um síðustu helgi. Í lok tónleikanna voru fjórir félagar gerðir að heiðursfélögum LÞ.
Það voru þau Sigríður Kjartansdóttir, Gestur Áskelsson, Hermann G. Jónsson og Róbert Darling. Þau hafa öll verið hluti af Lúðrasveit Þorlákshafnar frá stofnun sveitarinnar og hefur hlutur þeirra í starfinu verið veigamikill á mörgum sviðum.
Róbert stjórnaði t.d. sveitinni fyrstu 32 árin og skóp þann grunn er hún byggir á og hann ásam Gesti og Sigríði hafa kennt miklum meirihluta tréblástursleikara sveitarinnar. Og öll fjögur hafa verið virk í stjónarstörfum í gegnum tíðina og missa ekki af æfingu nema líf liggi við.
Ásberg sat á fremsta bekk
Fyrir var aðeins einn heiðursfélagi LÞ, Ásberg Lárenzínusson, og hlaut hann þá nafnbót fyrir að vera guðfaðir lúðrasveitarinnar og virkur þátttakandi í áraraðir. Ásberg var viðstaddur tónleikana og sat á fremsta bekk með stórfjölskyldu sinni.
Einn af fjölmörgum gestum á afmælistónleikunum var forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson. Hann gerði hátíðlega stund enn fallegri er hann tók þátt í því að taka inn nýju heiðursfélagana ásamt formanni sveitarinnar, Ágústu Ragnarsdóttur.