Fjórtán lögreglumenn í sóttkví eftir handtöku þjófagengis

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær, að beiðni Lögreglunnar á Suðurlandi þrjá einstaklinga sem grunaðir voru um þjófnað úr verslunum á Selfossi.

Við rannsókn málsins kom í ljós að þeir komu til landsins fyrir fjórum dögum og áttu því að vera í sóttkví. Vegna þessa var ákveðið að taka sýni úr nefkoki til að kanna með hugsanleg COVID-19 smit. Niðurstöður bárust lögreglu um hádegi í dag og reyndust þá tveir einstaklingana vera jákvæðir.

Vegna almannahagsmuna og byggt á heimildum í sóttvarnalögum hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi að beiðni sótttvarnalæknis vistað aðilana á meðan frekari rannsóknir m.a. mótefnamæling fara fram. Þremenningarnir komu til landsins með þremur öðrum einstaklingum og er þeirra nú leitað.

Ákvörðun um næstu skref verða tekin þegar þær niðurstöður liggja fyrir.

Vegna málsins eru 14 lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi og Höfuðborgarsvæðisins í sóttkví.

Fyrri greinBikarvörnin byrjar í Garðabæ – Selfoss og Árborg fengu útileiki
Næsta greinFjör á héraðsleikum í frjálsum