„Þetta er rekið á yfirdrætti og lendir á sveitarfélaginu,“ segir Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps, um ríflega fjórtán milljóna króna hallarekstur á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík.
Sveitarstjórn fjallaði um ársreikninga heimilisins nýverið. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi Hjallatúns fyrir árið 2013 námu tekjur heimilisins 122,8 milljónum króna en rekstrargjöld voru 136 milljónir.
Elín segir viðvarandi halla vissulega erfiðan og hann sé í sífelldri endurskoðun. „En við höfum gert mjög margt til að draga úr þessu, og vandinn liggur vissulega í því að þetta eru ekki mörg rými og óhagstæð eining í rekstri,“ segir hún.
Átján rými eru í Hjallatúni og eru ellefu þeirra hjúkrunarrými. Elín segir að líkt og annarsstaðar telji menn að daggreiðslur frá ríkinu séu of lágar til að ná endum saman við reksturinn.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu